Þræðir á landi

Þræðir á Landi

Myndlistarverk í sjö þáttum eftir Borghildi Óskarsdóttur

Verkið fjallar um þráð fimm kynslóða af Reynifellsætt sem bjó á sjö jörðum í uppsveitum Rangárvallasýslu á árunum 1760 til 1941. Upphaf ættarþráðar er á Reynifelli á Rangárvöllum. Þaðan liggur þráðurinn að sex stöðum í Landsveit: Mörk, Gamla­Klofa, Stóra­Klofa, Gamla­Skarðsseli, Skarðsseli við Þjórsá og Skarfanesi. Þetta er saga almúgafólks i stórbrotinni náttúru, þar sem landið er í sífelldri endursköpun vegna eldgosa, jarðskjálfta og harðviðris.

Í þessum sveitum, sem eru á mörkum byggðar og óbyggða, bjuggu forfeður föður míns og þar fæddist móðir hans og ólst upp. Á sumum stöðum má enn sjá ummerki búsetu, hlaðna garða, veggi og grónar tóftir. Þar rísa fjöll við sjóndeildarhring, hvert með sínu sniði og Hekla, drottningin sjálf, skipar öndvegi við hálendisbrún.

Meginlínur landslagsins liggja frá hálendinu í norðaustri í sjávarátt til suðvesturs. Línur heiða og holta, fella og fjalla og farvegir vatna liggja um landið eftir þessum línum. Náttúran er stórbrotin og fögur en hún getur líka verið ógnvekjandi.

Faðir minn vakti hjá mér áhuga á ættarþræði forfeðra okkar. Hann fékk mig með sér á staðina þar sem fólkið hafði búið og ég heillaðist af þessari sunnlensku uppsveit. Frásagnir af fólkinu tengjast sveitinni og stöðunum þar sem það fæddist, lifði og dó. Söguþræðirnir liggja þvert á línur landsins og eru samofnir þeim.

Að vissu leyti eru sögustaðir heilagir staðir. Saga fólksins eru rætur okkar og ræturnar liggja um landið. Ef við þekkjum söguna og virðum hana þá flytst sú virðing yfir á staðina, yfir á náttúruna.