UMHVERFISMAT

Umhverfismat vegna Skarðssels við Þjórsá

Undanfarin ár hefur Borghildur Óskarsdóttir unnið merkilegt starf með verkum sínum sem fjalla um sögu almúgafólks í stórbrotnu landslagi Landsveitar og Rangárvalla.

Forfeður hennar bjuggu í þessum sveitum á mörkum byggðar og óbyggðar þar sem landið er í sífelldri endursköpun vegna eldgosa, jarðskjálfta og sandstorma. Margir bæjanna eru löngu komnir í eyði en á sumum stöðum má enn sjá ummerki búsetu, hlaðna garða og grónar tóftir.

Verk hennar fela í sér vinsamlega hvatningu um að læra að þekkja söguna og virða hana. Sjálf segir hún: „Saga fólksins eru rætur okkar og ræturnar liggja um landið.“

Borghildur hefur rakið þráð fimm kynslóða sem bjuggu á þessum slóðum, á 7 bæjum, á árunum 1760 til 1941 í verkinu „Þræðir á Landi“. Hún hefur komið fyrir steintöflum við bæjartóftirnar með sögubroti um fólkið sem bjó þar. Þar kemur fram hvernig bújarðir eyðilögðust og fólk hraktist undan svörtum sandinum sem átti uppruna sinn í Heklugosum.

Einn bæjanna er Skarðssel. Þar reistu Höskuldur Jónsson og Arndís Magnúsdóttir, langafi og langamma Borghildar, bæjarhús árið 1894 eftir að hafa hrakist frá eldra bæjarstæði Skarðssels, norðan Skarðsfjalls í Landsveit, undan sandburði sem hafði sléttfyllt allar lautir í túnum og spillt vatnsbóli.

Tóftir Skarðssels eru á grösugum árbökkum Þjórsár norðaustan við Skarðsfjall.

Bærinn var grafinn upp í sumar og var uppgröfturinn liður í lögbundnu umhverfismati vegna fyrirhugaðra virkjanframkvæmda við Þjórsá. Þarna verður byggð svokölluð Hvammsvirkjun, en hún verður efst af þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár.

Bændur sem búa á jörðum austan og vestan Þjórsár hafa mótmælt þessum framkvæmdum opinberlega. Þeir telja að uppistöðulónin þrjú sem fylgja framkvæmdunum muni skaða arðsamar bújarðir og ógna fiskgengd í ánni, auk þess sem ásýnd svæðisins gjörbreytist og versni enda mun vatnið hverfa á köflum úr farvegi þessa mikla vatnsfalls.

Verk Borghildar „Umhverfismat“, sem nú er sýnt í ráðhúsi Reykjavíkur, minnir okkur á líf fólksins sem reisti bæinn á flótta undan svarta sandinum fyrir tæpum 125 árum.

Til að styrkja tengslin við sögu fólksins raðar hún handgerðum leirskálum sínum inn í tóftirnar og vill um leið opna augu okkar fyrir samspili þessara manngerðu minja og stórbrotinnar náttúrunnar sem umliggur þær.

Verkið hvetur okkur til að velta umhverfismatinu fyrir okkur. Að skyggnast á bak við tækniorðið og spyrja á hvaða mati það byggi.

H.S. sept. 2016