ER OKKAR VÆNST?

Leynilegt stefnumót í landslagi

e.  Hjálmar Sveinsson

Af Kambabrún blasir við flatlendi rammað inn af frægum fjöllum með hvítar hettur og drungalegu Atlantshafi sem lemur ströndina nótt og dag. Útsýnið er magnað þótt þarna séu ekki grösugir dalir með stórbýli og hvanngræn tún, heldur mestan part móar og mýrar og beitarhólf fyrir hross. Við ströndina grillir í Eyrarbakka og Stokkseyri en Þorlákshöfn er þarna einhvers staðar líka og beint framundan er Hveragerði. Skyldi einhver eiga stefnumót við okkur í þessu flata landslagi? Er okkar vænst?

Þetta er gömul og ný þjóðleið, sennilega sú fjölfarnasta á landinu ef frá er talinn vegurinn sem liggur að Keflavíkurflugvelli og beinustu leið burt af landinu. Margir keyra hér viðstöðulaust í gegn, það er varla að fólki finnist taka því lengur að stoppa í Eden. Í maí 1918 fóru hjónin Bjarni Bernharðsson og Ragnhildur Höskuldsdóttir með börnin sín fimm þessa leið í fjögurra hjóla tjaldvagni með tveimur hestum fyrir. Heimili þeirra í Hafnarfirði hafði verið leyst upp og þar sem Bjarni átti svokallaða sveitfesti í Gaulverjabæjarhreppi bar þeim að fara þangað. Sveitfesti mannsins en ekki konunnar réð. Fjölskyldan kom að Sléttabóli í Flóa og daginn eftir dreif að fólk til að sækja börnin. Óskar (6 ára) fór að Efri-Gegnishólum, Bjarni (2ja ára) að Austur-Meðalholti og Róbert (7 mánaða) að Hellum. Ragnar (5 ára) var fyrst um sinn á Sléttabóli, en fór síðan að Skógsnesi og Fljótshólum, en Arndís (3ja ára) var hjá foreldrum sínum á Eyrarbakka. Eftir að austur kom eignuðust Bjarni og Ragnhildur tvo drengi: Ólaf sem lést fjórtán ára og Bjarna sem lést þriggja ára. Þau reyndu að fá börnin til sín aftur en sjálf höfðu þau orðið fyrir því að æskuheimili þeirra voru leyst upp. Enn þá er búið á þessum bæjum nema Sléttabóli.

 

Borghildur er fædd 1942 og hefur starfað lengi sem skúlptúristi. Ragna Sigurðardóttir, rithöfundur og gagnrýnandi, hefur sagt að í verkum hennar speglist nútíð og fortíð, nálægð og fjarlægð, hið agnarsmáa og hið risatóra. Borghildur hefur undanfarin ár unnið með sína eigin ættarsögu. Fyrir sex árum sýndi hún verkið „Mynstur í móðurætt“ í Listasafni Reykjavíkur. Þar raðaði hún upp miklum fjölda af andlistsmyndum úr móðurætt sinni í stórt hringlaga form á bláan grunn. Svo kom að föðurættinni. Borghildur tók viðtöl við systkinin sem var dreift á bæina í Flóanum í maí 1918 og skoðaði söguþætti og endurminningar. Systkinin eru nú öll látin, síðastur lést elsti bróðirinn Óskar Bernhard Bjarnason 95 ára gamall í október 2007. Hann var faðir Borghildar og mundi vel eftir ferðinni austur í hestakerrunni.

Margslungið verk Borghildar í Listasafni Árnesinga er framhald sýningar sem hún hélt í Listasafni ASÍ í apríl 2007 og hún kallaði „Opnur – sögur frá liðnum tíma í ljósi mynda“. Hún hefur útbúið nokkurs konar bókverk, spjöld með ljósmyndum og textum sem hún leggur á gólfið þannig að spjöldin minna á landslag eða húsaburstir. Ljósmyndirnar eru af húsum, landslagi og rústum í Flóanum og víðar á Suðurlandi. Á textahlið spjaldanna eru frásagnir og minningar Óskars og systkina hans og ættingja. Borghildur tengir sjálfa sig við þessa sögu með því að sýna dagbókarskrif sín frá undirbúningstíma sýningarinnar. Hún skráir sína hversdagslegu tilveru um leið og hún rannsakar rætur fjölskyldu sinnar í landslaginu. Tengslin við landslagið eru undirstrikuð með því að láta dagbókarblöðin mynda einskonar landslagslínu á vegg. Hún hefur einnig mótað fjöldann allan af leirskálum með höndunum og staflað þeim upp. En það er engu líkara en að þær hafi vaxið svona, að þær séu lífrænar. Út úr þeim má lesa einhverskonar tímamæli eins og við lesum árhringi trjáa.

Ragnar Bjarnason varð eftir á Sléttabóli þegar bræður hans voru sóttir. Hjónin á bænum tóku sig upp ári síðar og fluttu til Stokkseyrar. Ragnar, sem þá var orðinn sex ára, hélt að hann færi með þeim en það kom ekki til greina því Stokkseyrarhreppur var ekki meðlagsskyldur fyrir börn Bjarna og Ragnhildar. Ragnar varð því eftir í Gaulverjabæjarhreppi og fór að Skógsnesi. Þar var hann í þrjú ár eða þar til bóndinn flutti. En hjónin sem tóku við búinu vildu ekki hafa Ragnar og því fór hann til foreldra sinna á Stokkseyri enda höfðu þau viljað fá hann. Tæpu ári seinna dó faðir hans og þá fór Ragnar til frændfólks síns á Fljótshólum þar sem hann var í fimm ár. Hreppurinn hætti reyndar að borga með börnum eftir að þau fermdust. Ragnar var eitt ár til viðbótar á bænum sem vinnumaður.

Hreppaflutningar áttu sér djúpa rót í íslenskri samfélagsgerð. Þeir byggðust lagalega á fátækralöggjöfinni frá 1834 sem aftur var skilgetið afkvæmi manntalsins frá 1703 sem leiddi þá ískyggilegu þjóðfélagslegu stöðu í ljós að „þurfamenn“ á Íslandi voru rúmlega 15% landsmanna. Í fátækralöggjöfinni var kveðið á um framfærsluskyldu sveitarfélaga, sveitfesti og hreppaflutninga. Með þeim ákvæðum var vissulega brugðist við félagslegum vanda en þetta var pólitísk löggjöf og miðaði við hvað væri heppilegt fyrir samfélagsgerðina eins og hún var, en ekki endilega hvað væri heppilegt fyrir einstakar fjölskyldur. Fátækralöggjöfin leysti upp fjölskyldur og svipti fólk ekki aðeins sjálfræði heldur einnig kosningarétti og kjörgengi. Talið er að síðustu hreppaflutningarnir hafa átt sér stað 1927 þegar fjölskylda á Ströndum var flutt milli sveitarfélaga.

Í frægum hugleiðingum um söguhugtakið skrifar þýski heimspekingurinn Walter Benjamin að fortíðin beri með sér leynileg teikn sem leiði hana á vit endurlausnar sinnar. „Andar ekki um okkur blær af því sama lofti og lék um þær kynslóðir? Má ekki heyra í þeim röddum sem við ljáum eyra bergmál þeirra radda sem nú eru þagnaðar?“ Benjamin heldur því fram að okkar sé vænst á jörðinni af fyrri kynslóðum, að þær eigi við okkur leynilegt stefnumót. Hann er ekki að tala um yfirnáttúrlega hluti. Hann hefur einkum í huga hina nafnlausu, gleymdu og fátæku fortíð. Borghildur opnar þessa fortíð upp á eigin spýtur og veitir okkur um leið hlutdeild í sínu eigin lífi. Hún sýnir okkur þessa fortíð í ljósi mynda og frásagna og skráir um leið sinn eigin tíma en sá tími er, þegar allt kemur til alls, tími okkar allra. Og svo sést til Óríons, skærasta stjörnumerkisins, sem táknar fornsögulega hetju sem bar af öllum sakir atgervis og glæsileika. Hann er þarna í öllu sínu veldi, stiginn niður af næturhimninum. Borghildur hefur teiknað hann á vegginn.