Þjórsá

Þjórsá – Sýning í Listasafni Árnesinga 2018

Hugmynd verksins Þjórsá kviknaði í kjölfar sýningarinnar Umhverfismat vegna Skarðssels við Þjórsá 2016 en báðar þessar sýningar tengjast fyrri verkum undanfarinna ára sem fjalla um forfeður mína og um landið og náttúruna þar sem þeir bjuggu. Í sýningunni Þjórsá er það náttúran sem hefur aðalvægið.

Upphaf verkefnaseríunnar kom til mín í gegnum föður minn, en á efri árum fékk hann mikinn áhuga á sögu forfeðra sinna og á landsvæðinu þar sem þeir höfðu búið. Ég fór með honum um Rangárvelli og Landsveit og við leituðum uppi sjö bæjartóftir, sumar langt frá alfaraleiðum.

Einn bærinn var Skarðssel við Þjórsá.

Sumarið 2005 kom ég fyrst að tóftum Skarðssels á bökkum Þjórsár, þar sem áin breiðir úr sér og rennur straumþung fram með grösugum bökkum og eyjum.

Allt umhverfið er þarna stórkostlegt; í austri Búrfell og Hekla en handan árinnar sveitabæirnir, sem kúra á grænum túnum undir ávölum fellunum, Hagafjalli og Miðfelli.

Á þessum tíma var í gangi umræða um Hvammsvirkjun, en það var ekki fyrr en þarna sem ég áttaði mig á að þetta var einmitt staðurinn, þar sem stíflumannvirkin og Hagalón eru fyrirhuguð, með um fjögurra km. löngum og um fimm metra háum stíflugarði, Landsveitarmegin.

Ef af þessu verður munu Skarðsselstóftir hverfa undir garðinn og bakkar árinnar og eyjarnar hverfa undir  yfirborð Hagalóns, sem mun verða um 9 metrum hærra en núverandi yfirborð árinnar.

Æsa Sigurjónsdóttir: Á ferð um Þjórsárbakka með Borghildi Óskarsdóttur

Umhverfislist hefur verið skilgreind sem list í opinberu rými sem tekur mið af tilteknu umhverfi eða er nátengd ákveðnum stað og náttúrulegum eiginleikum hans. Undanfarna áratugi hefur Borghildur Óskarsdóttir unnið að ýmis konar rannsóknarverkefnum sem tengjast fjölskyldusögu hennar. Hún hefur fetað sig aftur í tímann eins og ættfræðingur í leit að sannleikanum um upprunann, en leitina mætti ef til vill kenna við áráttu sem franski heimspekingurinn Jacques Derrida kallaði óviðráðanlega löngun nútímamannsins til að snúa aftur til upprunans. Á sýningunni MH-30, í tilefni 30 ára afmælis Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík árið 2002,raðaði hún saman andlitsmyndum af móðurfólki sínu í hringlaga form á bláum grunni,eins og það væri stjörnuþoka á himinhvolfi, og nefndi Mynstur í móðurætt. Þannig hefur hún miðlað sögu ættingja sinna í ljósmyndum, vidéóverkum, innsetningum og textum, auk þess sem hún fremur gjörninga með leirskálum sem minna á fórnarathafnir til heiðurs forfeðrunum.

Í verkinu Þræðir á landi. Myndlistarverk í sjö þáttum, sem sýnt var í Borgarbókasafni á Listahátíð vorið 2014, birti Borghildur niðurstöður af ítarlegri rannsókn á lífi og heimahögum föðurættar hennar í uppsveitum Rangárvallasýslu. Hún leiddi áhorfandann fyrst að grónum húsarústum á Reynifelli undir Þríhyrningi, þar sem ættforeldrar hennar, Þorgils Þorgilsson og Guðrún Erlendsdóttir, settust að árið 1760. Síðar fluttu þrír afkomendur þeirra í Landsveit. Einn þeirra, Jón Finnbogason bóndi í Mörk á Landi, var langalangafi Borghildar. Hún skoðar búsetu fjölskyldunnar í vistfræðilegu samhengi og rekur stormasama ævi langafa og langömmu sinnar, Höskuldar og Arndísar Magnúsdóttur, frá því þau hófu búskap milli lækja í landi Merkur. Þaðan fluttu þau í Stóra-Klofa, sem brátt fór í eyði vegna sandstorma, og leituðu þá skjóls í vinnumennsku í Biskupstungum, en eftirlifandi börn þeirra fóru í fóstur eins og venja var þegar foreldrar þurftu að bregða búi. Þau snéru svo aftur til heimahaganna og hófu búskap á ný, fyrst á eyðibýlinu Gamla Skarðsseli, þar sem þau hlóðu skjól í opnum skúta, byggðu lítið fjós og fundu vatnsból. Þau náðu börnunum til sín aftur, en hrökluðust enn frá býli sínu undan sandburði sem fyllti allar lautir og spillti vatnsbólinu. Þá fluttu þau bæjarhúsin vestur á Þjórsárbakka og endurbyggðu þar Skarðssel árið 1893 til 1894, og enduðu svo ævikvöldið hjá syni sínum og tengdadóttur í Skarfanesi, en þar var búið til ársins 1941, en þá fluttist fjölskyldan suður.

Svipuð örlög biðu afa hennar og ömmu, Bjarna Bernharðssonar og Ragnhildar Höskuldsdóttur, og barna þeirra sjö, sem Borghildur segir frá í verkinu Er okkar vænst?í Listasafni Árnesinga árið 2008. Fjölskyldan flosnaði upp frá heimili sínu í Hafnarfirði harðindavorið 1918 og mátti hverfa aftur til sveitar í Gaulverjabæjarhreppi, þar sem börnunum var dreift á bæi í Flóanum. Í sama verki fylgdi hún sögu föður síns, Óskars Bernhards Bjarnasonar, sem var komið í fóstur 6 ára gömlum að Efri – Gegnishólum í Flóa, en hann var helsti heimildarmaður Borghildar um þessa atburði.

Þræðir á landier því bæði huglægt frásagnarverk og staðbundið umhverfisverk sem byggir á ítarlegri kortlagningu á búferlaflutningum ættfólksins, frásögnum af hrakningum þess og reynslu af erfiðri lífsbaráttu og náttúruógn sem Borghildur formgerði í sjö minningarmörkum við bæjartóftirnar við Reynifell, Mörk, Gamla-Klofa, Stóra-Klofa, Gamla-Skarðssel, Skarðssel við Þjórsá, og í Skarfanesi. Þetta eru steintöflur sem allar stefna frá norðaustri til suðvesturs samsíða meginlínum landslagsins og eru á þær letraðar stuttar frásagnir af lífsbaráttu fólksins.

Ári síðar færði Borghildur sig í hversdagslegri og líkamlegri nánd við forfeðurna í innsetningunniSæng með gömlu veri, sem er vídeó og textaverk unnið upp úr uppskrift á dánarbúi Jóns Finnbogasonar, bónda í Mörk á Landi,en hann lést árið 1859. Í búi hans voru ýmsir hlutir sem allir voru metnir til fjár og bera þeir vott um tiltölulega góð efni. Borghildur leikur sér hér með efniskennd orðanna og táknrænar myndir þeirra sem hún þræðir saman í vísubrot. Á bænum voru: „reiðskjótar, sálmar og sængur/meisar, keröld og ket/klifberar, snemmborinn kálfur/stafgólf og silunganet.” Menning fólksins var svo nátengd landinu og náttúrufarinu að tungumálið og skáldskapurinn leitar áreynslulaust inn í þulur Borghildar og hjálpar áhorfandanum að skynja farveg listakonunar og vitundarrými hennar. Hún sækir raddir úr fortíðinni og ýmsir svipir og minningar leika ljósum logum í ættarverkum hennar sem mynda í raun eina heild eins og kaflar í bók. Stök orðin vísa í daglegt líf, heim sem virðist bjartur og opinn í samhljómi við náttúruna, í mótsögn við þá fátækramynd sem við gerum af fortíðinni.

Rannsókn Borghildar á sögu föðurfólksins, sem hún sýndi fyrst í Listasafni ASÍ árið 2007 undir heitinu Opnur – sögur frá liðnum tíma í ljósi mynda,hefur smátt og smátt þróast yfir í umfangsmikið vistfræðilegt verkefni þar sem nærumhverfi fólksins eru gerð ítarleg skil og menningarminjar landsins hafðar í heiðri. Á allra síðustu árum hefur sjónarhorn listamannsins orðið pólitískara og opinberar deilur um virkjunarframkvæmdir í Þjórsá og afleiðingar þeirra fyrir allt landsvæðið urðu m.a. tilefni að verkinuUmhverfismat vegna Skarðssels við Þjórsá, sem var sýnt í Ráðhúsi Reykjavíkur haustið 2016. Þar gerði Borghildur grein fyrir fornleifarannsókn á býlinu Skarðsseli, en rannsóknin var liður í lögbundnu umhverfismati vegna fyrirhugaðra framkvæmda Landsvirkjunar við Hvammsvirkjun í Þjórsá, því Skarðsselstóftir munu hverfa undir stíflumannvirki, ef af framkvæmdum verður, og allt landslag mun gjörbreytast.

Í verkinu Þjórsáskrifar Borghildur nýjan kafla í heildarverk sitt og setur rannsóknina á fjölskyldusögunni í fyrirbærafræðilegt samhengi. Áherslan er ekki lengur á ættfræðina og frásagnir fólksins af baráttunni við sandinn, heldur á beina náttúrutengingu vitundarinnar við umhverfið. Í verkinubeinir hún athygli áhorfandans að Þjórsá, lengsta fljóti á Íslandi sem á upptök sín á norðanverðum Sprengisandi og rennur til sjávar í suðri. Áin er blanda af bergvatns- og jökulá sem gerir hana mjólkurhvíta, frjósama og dularfulla lífæð vistkerfisins. Fjallahringurinn er stórbrotinn og Borghildur nýtir sér jafnt alsjáandi auga yfirlitsmyndavélarinnar og einstaklingsbundna nærmynd göngumannsins til að miðla því sem fyrir augu ber.Tvískipt sjónarhornið (fjær og nær) og fjölbreytt náttúruhljóðin sem fylgja innsetningunni, færa raunveruleikann nær og ýta undir innlifun áhorfanda. Vatnið seytlar, við heyrum þyt í grasi og kvak fuglanna. Verkið er því jafnframt hljóðverk, sem gera áhorfandann meðvitaðan um tímann sem líður, þrátt fyrir að upplifa sig í rými þar sem tíminn virðist standa kyrr.

Náttúran er síbreytileg og í þessu verki tileinkar Borghildur sér sjónarhorn náttúrufyrirbærafræðinnar (e. eco-phenomenology). Hún beinir þar með sjónum að reynslu sinni og upplifun á ánni og lífríkinu í kring um bæjarrústirnar á Skarðsseli austan árinnar þar sem enn sjást glögg merki nærveru fólksins hennar. Í verkinu miðlar hún birtu, lit, hreyfingu, hljóðum, áferð, og öðrum eiginleikum umhverfisins sem hafa sterkt fagurfræðilegt aðdráttarafl.Fuglalíf, gróður, og grónar mannvistarleifar mynda samhljóm í altumlykjandi landslagi og ægifögrum sjóndeildarhring. Þessi fyrirbærafræðilega nálgun hennar á umhverfinu varpar ljósi á og styrkir vistfagurfræðilega (e. eco-aesthetics) afstöðu hennar sem hún miðlar til áhorfanda, fullviss um að þekkinguna sé ætíð að finna í beinni reynslu af raunveruleikanum. Þannig styður myndefnið og hljóðin við einstaklingsbundna tengingu hennar við staðinn og áhorfandinn skynjar leit hennar að þeirri djúpu tilfinningu sem fylgir því að eiga heimili. Um leið skilur hann hvaða eiginleika umhverfisins hún telur verðmæta.

En þrátt fyrir sterka náttúruinnlifun áhorfandans í fjölþættu skynjunarrými verksins, þá er Þjórsáfyrst og fremst pólitískt verk sem endurspeglar eitt helsta álitamál samtímans, þ.e. verðmæta – og varðveislumat náttúrunnar. Þótt yfirlýst markmið verksins sé að stuðla að staðbundinni vitundarvakningu um mikilvægi lífríkisins við árbakka Þjórsár og náttúru- og menningarminjar sveitanna í kring, þá tekst Borghildi að stíga skrefi lengra og opna rannsókn sína inn í opinbera umræðu um náttúruvernd almennt í stærra samhengi. Verkið er því rökrænt framhald af fyrri búseturannsóknum og styður við auknar kröfur samfélagsins um heildstætt mat stofnana á náttúruverðmætum landsins, sem stjórnmálamenn og fyrirtæki eiga sífellt erfiðara með að skjóta sér undan. Verkið Þjórsákveikir því spurningar um hvaða þætti eða eiginleika umhverfisins vill samfélgið sameinast um að telja verðmæta?

Vistvænt sjónarhorn Borghildar gerir ráð fyrir því að maðurinn sé ekki aðskilinn frá náttúrunni, heldur sé hann hluti hennar og beri samfélagslega ábyrgð á umhverfinu. Borghildur virðist því taka undir með þeim hugsuðum sem telja að forfeðurnir, fyrri kynslóðir, eða vofurnar í lífi okkar, séu hingað komnar til að minna á sig í veröld sem virðist sífellt færast fjær siðfræðilegum markmiðum mannlegs samfélags og sanngirni gagnvart þeim sem á eftir koma. Á þann hátt vekur verkið Þjórsáspurningar um réttlætti og virðingu, ekki aðeins gagnvart þeim sem eitt sinni bjuggu við ána, heldur einnig varðandi varðveislu á lífríki sem samfélagið ber ábyrgð á.

Orðið jörð hefur fjölþætta merkingu á íslensku, því jörðin er allt í senn jarðvegurinn og landið, býlið og reikistjarnan.Umhverfisverk Borghildar verður að skoða sem hluta af tilhneigingu vistvænnrar og pólitískrar myndlistar síðustu áratuga í átt að póst-húmanískri nálgun og skilningi á náttúrunni sem sjálfstæðu fyrirbæri sem manninum beri að sýna óskipta athygli. Umhverfis- og ættarverk hennar hvetja til óskiptrar vitundar um veruleikann, því þar skynjar áhorfandinn að gildi á sér rætur í hversdagslegri reynsu og að fagurt landslag sé langt frá því að vera eina röksemdin fyrir verðmætamati náttúrunnar. Verkið Þjórsákveikir því enn brýnni spurningar um uppsprettu verðmæta, verndargildi náttúrunnar og ábyrgðina sem felast í því að friða tiltekin svæði með framtíðina að leiðarljósi.

Æsa Sigurjónsdóttir

Listfræðingur, dósent við Háskóla Íslands  aesas@hi.is

Birt í : sýningarskrá, sem gefin var út í tengslum við sýninguna Þjórsá í Listasafni Árnesinga 10. mars – 10. maí 2018.